Innlent

Sagnfræðingar ósammála um hlerunarskjal

Sighvatur Jónsson skrifar

Prófessor í sagnfræði efast um að lögreglan hafi byggt ákvarðanir um símahleranir árið 1968 á nýframkominni lögregluskýrslu, með lýsingum kranabílstjóra á því að hann hafi heyrt menn undirbúa mótmæli. Annar sagnfræðingur telur nýja skjalið hinsvegar skýra mun betur en áður af hverju ákveðið var að leita úrskurðar til símahlerana.

Skjalið, sem talið er varpa ljósi á hvers kyns upplýsingar lágu að baki símahlerunum árið 1968, er lögregluskýrsla dagsett 30. maí sama ár.

Í skýrslunni greinir kranabílstjóri frá orðrómi sem hann hafi heyrt um skipulagðan undirbúning mótmæla vegna væntanlegs fundar NATO í Reykjavík, síðar á árinu 1968.

Kranabílstjórinn segir frá manni sem hafi talað um að 50 útlægir Grikkir og fjöldi stúdenta úr Evrópu væru væntanlegir til landsins, íslenskum stúdentum til stuðnings.

Í skýrslunni segir orðrétt: „...og mundu þessir menn eiga að hafa frumkvæði um mótmælin og vinna skemmdarverk, enda vanir slíku, meðal annars væri áætlað að kveikja í bandaríska sendiráðinu, eyðileggja bíla þess og annað í líkum dúr."

Gísli Gunnarsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, segir að til séu skjöl frá erlendum leyniþjónustum með nöfnum tíu Grikkja sem hafi verið væntanlegir til landsins vegna mótmæla. Það skjal hafi verið lagt fyrir dóm á sínum tíma, og þykir Gísla líklegra að lögreglan hafi tekið ákvarðanir um símahleranir á grundvelli þeirra gagna, en skýrslu kranabílstjórans.

Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur, og höfundur bókarinnar „Óvinir ríkisins", telur hinsvegar nýja skjalið skýra betur en áður hefur komið fram, af hverju leitað hafi verið úrskurðar til símahlerana tveimur dögum eftir að kranabílstjórinn gaf sína yfirlýsingu. Nefnir hann sem dæmi að orðalag í þeirri beiðni hafi verið að á þá leið, að borist hafi út ákveðnar fregnir um að hafinn væri undirbúningur mótmæla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×