Innlent

Íslendingar í samstarf við Indverja á sviði sjávarútvegs

MYND/Getty

Sendiherra Íslands á Indlandi, Dr. Gunnar Pálsson, og ráðuneytisstjóri sjávarútvegsmála í landbúnaðarráðuneyti Indlands, frú Charusheela Soni, undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um samstarf Íslands og Indlands á sviði sjávarútvegsmála. Á heimasíðu utanríkisráðuneytisins segir að í yfirlýsingunni sé lýst vilja til að auka sjávarútvegssamstarf ríkjanna „m.a. á sviði rannsókna, fiskveiðistjórnunar, fiskeldis, fiskvinnslu og markaðssetningar sjávarafurða."

Gert er ráð fyrir að komið verði á beinu samstarfi viðeigandi sjávarútvegsstofnana á Íslandi og Indlandi og auknu samstarfi vísindamanna og sérfræðinga á sviði sjávarútvegs að því að greint er frá á vefsíðu ráðuneytisins. Þá er sagt að viljayfirlýsingin kveði á um að stjórnvöld á Íslandi og Indlandi setji á laggirnar sameiginlegan vinnuhóp til að fjalla um samstarfið, meta árangur þess og setja því nánari markmið.

Indland er þriðja stærsta sjávarútvegsríki heims með tilliti til heildarafla, en á árinu 2004 nam hann 6,0 milljónum tonna eða um 5% af heildarafla á heimsvísu. Binda indversk og íslensk stjórnvöld vonir við að viljayfirlýsingin ryðji braut fyrir nánara samstarfi ríkjanna um að nýta þau tækifæri sem frekari þróun sjávarútvegsins hefur í för með sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×