Innlent

Landvernd vill að tímabundið virkjanaleyfi gildi í aðeins 1 ár

Sighvatur Jónsson skrifar

Formaður Landverndar segir eðlilegra að tímabundið virkjanaleyfi Múlavirkjunar muni gilda í aðeins eitt ár, í stað fjögurra eða fimm eins og iðnaðarráðherra hefur talað um. Umhverfissamtökunum finnst einnig vanta viðurlög og þvingunarúrræði í málefnum smærri virkjana þegar framkvæmdaáætlunum er ekki fylgt.

Björgólfur Thorsteinsson, formaður Landverndar, sagði í hádegisviðtalinu á Stöð 2 að það vantaði úrræði þegar kæmi að því að fylgjast með smærri virkjunum á landinu. Landvernd tekur því í sama streng og umhverfisráðherra, sem segir í Morgunblaðinu í dag að rök séu fyrir því að Skipulagsstofnun fái virkari úrræði.

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, sagði á Stöð 2 í gær að smærri virkjanir þyrfti að taka fastari tökum í framtíðinni. Björgólfur Thorsteinsson, formaður Landverndar, segir það ekki vel skilgreint að virkjanir undir ákveðnum stærðarmörkum sleppi við umhverfismat, þar sem lítil virkjun geti valdið mjög miklum og alvarlegum umhverfisáhrifum.

Iðnaðarráðherra sagði einnig í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að hann íhugaði að gefa út tímabundið virkjanaleyfi til Múlavirkjunar, til fjögurra eða fimm ára með ströngum skilyrðum um mótvægisaðgerðir til að tryggja viðgang straumandar og urriða á svæðinu.

Formaður Landverndar segir ekki rétt að tala um mótvægisaðgerðir, þar sem um það sé að ræða að færa eigi hlutina í samt horf aftur, miðað við upphaflegar áætlanir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×