Innlent

Áhyggjur af krónubréfum í kjölfar lækkunar hlutabréfa

Áttatíu og fimm milljarðar eru á gjalddaga í svokölluðum krónubréfum í september. Í framhaldi af falli hlutabréfa í Bandaríkjunum óttast margir að þessir peningar hverfi allir úr íslensku hagkerfi. Ásgeir Jónsson hjá Kaupþingi telur að erlendir fjárfestar hafi enn trú á krónubréfum og því fari peningarnir hvergi.

Þessi vika er sú versta á Wall Street frá því í september 2002. Í framhaldi af lækkunum á gengi hlutabréfa í Bandaríkjunum og í Evrópu gaf íslenska krónan eftir í gær um núll komma fimmtíu og þrjú prósent.

Í framhaldi af þessum lækkunum hafa sumir fjármálaskýrendur gefið í skyn að áhugi fjáfesta á íslenskum krónubréfum sé að minnka og svo kunni að fara að 85 milljarðar sem bundnir eru í svokölluðum Jöklabréfum, hverfi allir úr íslensku hagkerfi þegar bréfin verða á gjalddaga í haust.

Áhugi fjárfesta á krónunni skýrist meðal annars af miklum vaxtamun hér á landi og í nágrannalöndunmum. Ásgeir segir að reynslan sé sú að eftir því sem vaxtamunurinn sé meiri, því meir sveiflist gjaldmiðlarnir.

Síðasta vika var sú versta á Wall Street frá því í september 2002 og hlutabréf féllu einnig í verði í Asíu þegar fram kom hver þróunin var á hlutabréfamörkuðum í Bandaríkjunum.

Þrátt fyrir að uppgjör íslenskra fyrirtækja þessa dagana sýni almennt góða stöðu hér á landi náðu lækkanir í Bandaríkjunum til Íslands. Úrvalsvísitalan lækkaði í gær um eitt komma þrettán prósent. Ásgeir segir að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem óstöðugleika verði vart á hlutabréfamörkuðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×