Innlent

Saka íslensk lögregluyfirvöld um að brjóta alþjóðalög

Frá mótmælum samtakanna við Hellisheiðarvirkjun í vikunni. Níu voru handteknir.
Frá mótmælum samtakanna við Hellisheiðarvirkjun í vikunni. Níu voru handteknir. MYND/365

Íslensk lögregluyfirvöld gætu mögulega verið að brjóta alþjóðlög með því gera vegabréf mótmælenda á vegum samtakanna Saving Iceland upptæk. Þetta kemur fram í tilkynnningu frá samtökunum. Bresk kona á þrítugsaldri var handtekinn í gær vegna mótmæla við Kárahnjúkastíflu í fyrra. Hún neitaði að greiða 100 þúsund krónur í sekt og þarf því að sitja inni í átta daga. Samtökin hafa lokað tjalbúðum sínum í Mosfellsbæ.

Í tilkynningu samtakanna kemur fram að lögreglan hafi gert vegbréf þeirra erlendu mótmælenda sem hér eru staddir upptæk. Að mati samtakanna er lögreglan með þessu mögulega að brjóta alþjóðalög og stjórnarskrábundinn rétt einstaklinga til að mótmæla.

Þá segir ennfremur í tilkynningunni að annar íslenskur mótmælandi eigi yfir höfði sér 18 daga fangelsisvist vegna mótmæla við álver Alcan í Reyðarfirði í fyrra.

Samtökin lokuðu tjalbúðum sínum í Mosfellsbæ í gær en þar hafa mótmælendur dvalið í sumar. Á heimasíðu samtakanna eru þó boðaðar frekari mótmælaaðgerðir í sumar.

Um 60 manns gistu í búðunum þegar mest var að sögn talsmanns Saving Iceland og um helmingur þeirra með erlent ríkisfang. Hluti þeirra hyggst halda af landi brott á næstu dögum. Einhverjir ætla þó að vera áfram.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu staðfesti í samtali við Vísi að vegabréf nokkurra einstaklinga í Saving Iceland hefðu verið gerð upptæk. Að sögn lögreglu er um hefðbundnar aðgerðar að ræða þar sem þessir tilteknu einstaklingar eiga enn óuppgerð mál hér á landi. Vegabréfunum verði hins vegar skilað þegar þeir halda af landi brott.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×