Innlent

Virkjanir teknar fastari tökum í framtíðinni

Sighvatur Jónsson skrifar

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra telur að Múlavirkjun á Snæfellsnesi hefði ekki átt að vera undanþegin umhverfismati á sínum tíma. Hann segir virkjanir af þessari stærðargráðu verða teknar fastari tökum í framtíðinni. Nýtt virkjanaleyfi Múlavirkjunar verður takmarkað til fjögurra eða fimm ára.

Í fréttum Stöðvar 2 undanfarna daga hefur komið fram að Skipulagsstofnun telur sveitarstjórn Eyja- og Miklaholtshrepps ekki hafa sinnt eftirlitsskyldu vegna Múlavirkjunar á Snæfellsnesi. Framkvæmdir á svæðinu hafa ekki verið í samræmi við upphaflegar áætlanir, sem voru grundvöllur þess að virkjunin var undanþegin umhverfismati fyrir fjórum árum.

Meðal athugasemda Skipulagsstofnunar til sveitarstjórnarinnar er að hvorki hafi verið staðið við það að Straumfjarðará skyldi renna óröskuð um tíu til tuttugu metra, né að vatnsborð Baulárvallavatns yrði óbreytt.

Iðnaðarráðuneytið hefur tekið í taumana og endurskoðar virkjanaleyfið. Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, íhugar að gefa út takmarkað virkjanaleyfi, leyfi til fjögurra eða fimm ára með ströngum skilyrðum um mótvægisaðgerðir sem tryggja eigi viðgang straumandar og urriða á svæðinu.

Meðal þeirra skilyrða verður að yfirborð Baulárvallavatns verði það sama og áður og að rennsli verði í ánni milli Baulárvallavatns og Hraunsfjarðarvatns. Össur segir að í framtíðinni verði þær virkjanir sem kunni að verða gerðar í framhaldi annars staðar á landinu teknar fastari tökum.

Össur segir ennfremur að það þurfi að taka hart á því þegar metið sé hvort framkvæmdir sleppi við umhverfismat - það hefði þessi framkvæmd ekki átt að gera.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×