Innlent

Alcan ætlar að kæra mótmælendur

Lögreglan losar mótmælanda sem hefur hlekkjað sig við hlið að vinnusvæði álversins.
Lögreglan losar mótmælanda sem hefur hlekkjað sig við hlið að vinnusvæði álversins. MYND/Anton

Alcan ætlar að kæra þá meðlimi samtakanna Saving Iceland sem mótmæltu við álver fyrirtækisins í Straumsvík í gær. Fjármálastjóri fyrirtækisins segir lögfræðinga fyrirtækisins vera vinna í málinu.

„Við munum leggja fram kæru. Ég fékk lögfræðinga okkar til að fara í málið í morgun," sagði Sigurður Þór Ásgeirsson, fjármálastjóri álversins í Straumsvík, í samtali við Vísi.

Um 20 mótmælendur á vegum samtakanna Saving Iceland mótmæltu í gær fyrir framan álverið í Straumsvík. Þrír hlekkjuðu sig við hlið að vinnusvæðinu og náðu tímabundið að loka fyrir alla umferð að álverinu. Þá fóru nokkrir inn á vinnusvæðið sjálft til að mótmæla.

Lögreglan handtók 13 mótmælendur og voru þeir yfirheyrðir í gær. Tveir af þeim eru Íslendingar en hinir með erlent ríkisfang. Þeim var sleppt eftir yfirheyrslu í gærkvöldi.

Að sögn Sigurðar liggur ekki fyrir hversu mikið tjón varð að völdum mótmælanna. Hann segir þó einhverjar tafir hafa orðið vegna þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×