Innlent

Sveitarstjórn hundsar eftirlitsskyldu vegna virkjunar

Sighvatur Jónsson skrifar

Skipulagsstofnun telur Eyja- og Miklaholtshrepp hafa hundsað eftirlitsskyldu sína gagnvart Múlavirkjun á Snæfellsnesi. Framkvæmdir eru ekki í samræmi við þau gögn sem stuðst var við þegar stofnunin mat að virkjunin skyldi undanskilin mati á umhverfisáhrifum. Oddviti sveitarstjórnarinnar er jafnframt er forsvarsmaður virkjunarinnar.

Fyrir fjórum árum var ákveðið að Múlavirkjun skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Sú ákvörðun var meðal annars tekin á þeim forsendum að inntakslón myndi ekki ná alveg að Baulárvallavatni, svo Straumfjarðará gæti runnið órösku í um tíu til tuttugu metra. Þetta og fleira átti að tryggja lífríkið á svæðinu, og sveitarstjórn Eyja- og Miklaholtshrepps samþykkti fyrir sitt leyti áætlun framkvæmdaaðila.

Þar sem áætluninni hefur ekki verið fylgt eftir, telur Skipulagsstofnun að forsendur fyrir framkvæmdaleyfinu séu brostnar. Stofnunin hefur sent nokkrar athugasemdir til sveitastjórnarinnar, meðal annars vegna þess að framkvæmdin sé ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins. Skipulagsstofnun hefur ekki neina heimild til að sinna eftirliti, það er í höndum sveitarfélagsins.

Eggert Magnússon, sveitarstjóri, og forsvarsmaður virkjunarinnar, segist ætíð hverfa af fundi þegar málefni virkjunarinnar séu rædd, auk þess sem byggingarfulltrúi sjái um málið fyrir hönd hreppsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×