Innlent

Danir gefast upp á Tetra-kerfinu

Sighvatur Jónsson skrifar

Danskir slökkviliðsmenn hafa gefist uppá Tetra fjarskiptakerfi sem hefur verið til reynslu í Kaupmannahöfn í nokkurn tíma. Í Bretlandi hafa líka orðið vart um vandræði með samskonar kerfi. Framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar segir kerfin ekki sambærileg við það íslenska, sem sé nýjustu gerðar.

Tetra er tæknihugtak sem nær yfir ákveðna fjarskiptatækni, líkt og GSM stendur fyrir farsímatæknina. Kerfi af Tetra gerð hefur undanfarið verið til reynslu í tveimur sveitarfélögum í Danmörku, Kaupmannahöfn og Gentofte.

Danskir fjölmiðlar hafa síðustu vikur flutt fréttir af slæmri reynslu með kerfin, þar sem vandamál hefur verið að ná sambandi milli bíla og björgunarmiðstöðva. Dæmi er um að sjúklingur í hjartastoppi hafi þurft að bíða í tuttugu mínútur eftir að sjúkrabíl var fyrir misskilning ekið að röngu heimilisfangi. Þetta er sams konar kerfi og dönsk stjórnvöld hafa ákveðið að fjárfesta í fyrir milljarða danskra króna, til innleiðingar í öllu landinu.

Tetra kerfið á Íslandi er af gerðinni Motorola, og er samskonar kerfi og verið er að nota í Bretlandi. Danska kerfið er hins vegar eldri útgáfa. Þórhallur Ólafsson, forstjóri Neyðarlínunnar, segir íslenska Tetra-kerfið nýrra en það danska, auk þess sem dreifing sé mun betri. Í stað 40 senda áður eru yfir 150 sendar í íslenska Tetra-kerfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×