Innlent

Aukið umferðareftirlit kostnaðarsamt

Lögregluembætti landsins greiða ríkislögreglustjóra kílómetragjald fyrir hvern ekinn kílómetra en bílarninr sem lögreglan ekur á eru í eigu ríkislögreglustjóra. Þetta þýðir að aukið og virkt umferðareftirlit eykur kostnað lögregluembættanna á rekstri bifreiðanna. Dæmi eru um að bílarnir standi ónotaðir við lögreglustöðvar landsins vegna þessa.

Áður fyrr voru bílarnir reknir af hverju lögregluembætti fyrir sig og sáu þá embættin um rekstur og viðhald bílanna. Nú er bílunum miðstýrt af ríkislögreglustjóraembættinu sem á og rekur allar lögreglubifreiðar landsins og leigir þá lögreglunni. Nú þegar krafa er um að umferðareftirlit sé hert og virkara en hingað til þá eykst kostnaður lögregluembættanna vegna bílanna þar sem greitt er fyrir hvern ekinn kílómetra. Í víðfeðmum embættum getur kostnaðurinn aukist töluvert. Samkvæmt heimildum fréttastofu þá eru dæmi um það að bílarnir standi oft á tíðum ónotaðir við lögreglustöðvarnar sökum þessa. Þessi breyting á eignarhaldi bílanna kemur þó ekki illa niður á öllum. Lögreglan á Blönduósi segir til að mynda að þar á bæ séu menn sáttir við þetta fyrirkomulag en þar á bæ er mikil áhersla lögð á umferðareftirlit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×