Íslenski boltinn

Bjarni biðst afsökunar á marki sínu

Bjarni Guðjónsson, leikmaður ÍA, hefur beðist afsökunar á markinu furðulega sem hann skoraði gegn Keflvíkingum í Landsbankadeildinni í gærkvöld. Keflvíkingar brugðust mjög reiðir við og sökuðu hann um ódrengilegan leik. Til átaka kom eftir leikinn í gær og þurfti Bjarni að leita skjóls inni í búningsherbergjum til að verjast árásum Keflvíkinga.

Skagamenn höfðu 2-1 sigur í leiknum í gær, en síðara mark liðsins verður lengi umdeilt. Keflvíkingar spörkuðu boltanum út af hliðarlínu svo hægt væri að huga að meiðslum eins leikmanna ÍA. Í stað þess að færa Keflvíkingum boltann úr innkastinu í kjölfarið eins og siður er, var boltanum kastað til Bjarna sem skaut honum í átt að marki Keflavíkur frá miðju vallarins. Ekki vildi betur til en að boltinn sveif yfir markvörðinn og í netið.

Keflvíkingar voru skiljanlega reiðir yfir þessu og réðust að Bjarna í kjölfarið. Undir lok leiksins fékk einn leikmaður úr hvoru liði að líta rauða spjaldið og þegar flautað var til leiksloka hljóp Bjarni beint til búningsherbergja með nokkra Keflvíkinga fast á hæla sér.

Vísir hefur heimildir fyrir því að til nokkura átaka hafi komið í kjölfarið og að einn leikmanna Keflavíkur hafi m.a. náð að sparka í Bjarna. Stöð 2 tók viðtal við Bjarna í hádeginu þar sem hann útskýrir mál sitt. Hann segist leiður yfir því að hafa skorað markið umdeilda, en vill meina að hann hafi verið settur undir pressu þegar hann sparkaði boltanum og því hafi spyrnan misheppnast. Það hafi aldrei verið ásetningur að skora úr spyrnunni.

Þótt ótrúlegt megi virðast, eru til fordæmi fyrir svona ótrúlegum uppákomum eins og sést í þessu myndbroti úr hollensku knattspyrnunni. Þar verða leikmenn Ajax uppvísir af því að skora óvart úr viðlíka spyrnu, en það sem á eftir fylgdi verður að teljast einstaklega drengileg framkoma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×