Innlent

Aukin vatnsneysla Reykvíkinga jafnast á við neyslu allra í Kópavogi

Aukin vatnsnotkun Reykjavíkinga í þurrkunum að undanförnu samsvarar allri vatnsnotkun Kópavogsbúa. Hiti og þurrkur á landinu hafa verið langt yfir meðallagi í júní.

Fádæma þurrt hefur verið norðaustanlands og hefur aldrei mælst jafnlítil úrkoma í júní á Akureyri og nú. Í Reykjavík samsvaraði úrkoman helmingi meðalúrkomu. Þessir þurrkar hafa kallað á mikla vatnsnotkun í Reykjavík sem náði hámarki í lok júní þegar rennslið frá vatnstökusvæðum borgarinnar fór í 1,100 lítra á sekúndu.

Kristinn Helgi Þorsteinsson, garðyrkjustjóri Orkuveitu Reykjavíkur, hefur haft í nógu að snúast undanfarið. Hann segir að Reykvíkingar hafi aukið notkun sína á vatni um tuttugu prósent í þurrkunum undanfarið og aukningin eini jafnist á við alla notkun íbúa í Kópavogi.

Trausti Jónsson, veðurfræðingur, segir að sumstaðar sé orðið lítið vatn í neyslulindum.

Hiti í nýliðnum júnímánuði var víðast hvar var eitt til tvö stig yfir meðallagi. Hæsti hiti í júní mældist 23 stig á Egilsstaðaflugvelli. Hlýjast að tiltölu var á Vestfjörðum þar sem hiti var meiri en þremur stigum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Að sögn Trausta Jónssonar veðurfræðings er mánuðurinn annar eða þriðji hlýjasti júní fyrir vestan frá upphafi mælinga eða frá aldamótunum 1900.

Trausti Jónsson segist varla hafa trúað tölunum frá Vestfjörðum þegar hann sá þær fyrst því þar hafi hitinn verið svo langt yfir meðallagi.

Að baki er fimmti hlýjasti júní í Reykjavík síðastliðin 130 ár. Á Hveravöllum hefur meðalhitinn ekki orðið hærri frá upphafi mælinga þar eða frá árinu1965.

En þótt hitinn hafi verið mikill þá mældist samt frost í júní, og það mesta mældist á Gagnheiði þann 12. júní, - 3,7 gráður.

Samkvæmt veðurspá má ætla að nú sé þessum þurra góðviðriskafla fari senn að ljúka en reikna má með vætu á landinu næstu dagana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×