Innlent

Hátt í tvö þúsund manns á Bíldudals grænum

Aldrei fyrr hafa jafn margir verið samankomnir á Bíldudal eins og nú um helgina en hátt í tvö þúsund manns sóttu hátíðina Bíldudals grænar í steikjandi sól og blíðu.

Menn sögðu að stemmningin hefði verið alveg meiriháttar, sól og um og yfir tuttugu stiga hiti alla þrjá dagana sem hátíðin stóð og að hún hefði heppnast í alla staði afskaplega vel. Helgi Hjálmtýsson, verkefnisstóri Bíldudals grænna, áætlar að milli 1500 og 2000 manns hafi sótt hátíðina og er mönnum til efs að svo mikill mannfjöldi hafi áður verið samtímis á Bíldudal. Sérstakt leyfi fékkst til að veiða rækju úr Arnarfirði og síðan bauðst fólki að pilla hana sjálft á bryggjunni og taka með sér heim. Þarna var líka haldið meistaramót í kalkþörungakappakstri og kraftakarlar kepptu í Vestfjarðavíkingnum. Bíldudals grænar hefur þá sérstöðu að Arnfirðingar sjá sjálfir um helstu skemmtiatriði enda líta menn á hátíðina sem lið í því að viðhalda menningar-, lista- og sagnahefð sem Arnfirðingar hafi verið þekktir fyrir og skila henni til komandi kynslóða. Þannig var hápunkturinn tónleikar á laugardagskvöldinu þar sem eingöngu léku bíldælskir tónlistamenn. Markmið Bíldudals grænna er að kynna ferðafólki arnfirska menningu; efla tengsl milli Arnfirðinga; og auka tekjur af ferðafólki í byggðarlaginu. Hátíðin er á forræði Arnfirðingafélagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×