Innlent

Skilorðsbundið fangelsi fyrir umfangsmikla kannabisræktun

MYND/Páll Bergmann

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í dag karlmann í sjö mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir umfangsmikla kannabisræktun og fyrir að hafa ætlað að selja efnin.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa á tímabilinu ágúst 2005 til desember sama ár ræktað alls 163 kannabisplöntur í gamla sláturhúsinu í Laugarási á Suðurlandi. Þá var hann einnig ákærður fyrir að hafa um 1,3 kíló af marijúana og rúm fjögur kíló af kannabislaufum í vörslu sinni. Lögregla fann efnin við húsleit í desember 2005. Auk ákærunnar fyrir kannabisræktun var maðurinn ákærður fyrir að stela rafmagni til ræktunarinnar.

Maðurinn játaði að hafa ræktað plönturnar en neitaði að hafa ætlað að selja það. Því trúði dómurinn ekki og taldi sannað með hliðsjón af magni og þeim tækjum sem fundust á ræktunarstað að efnið hafi verið ætlað til dreifingar og sölu.

Auk fangelsisrefsingarinnar voru öll tæki sem notuð voru til ræktunarinnar gerð upptæk með dómi. Sama gilti um efnin og ríflega 300 þúsund krónur sem talið var sannað að maðurinn hefði fengið með sölu fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×