Innlent

Dómur í Baugsmálinu í dag

MYND/GVA

Dómur verður kveðinn upp klukkan þrjú í dag í þeim hluta endurákærunnar í Baugsmálinu sem Hæstiréttur vísaði aftur í hérað. Um er að ræða níu heila ákæruliði og hluta tveggja annarra sem héraðsdómur vísaði frá í upphafi maímánaðar eftir ein umfangsmestu réttarhöld í íslenskri réttarsögu.

Í þeim dómi var Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrverandi forstjóri Baugs, dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og Tryggvi Jónsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri fyrirtækisins, í níu mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir bókhaldsbrot.

Sigurður Tómas Magnússon, settur saksóknari í málinu, áfrýjaði ákæruliðunum sem vísað var frá til Hæstaréttar sem komst að því í byrjun síðasta mánaðar að héraðsdómi bæri að fjalla um níu ákæruliði og hluta tveggja annnar. Málflutningur vegna þeirra var í héraðsdómi um miðjan mánuðinn.

Flestir ákæruliðanna sem fjallað verður um í dómnum í dag snúa að meintum ólöglegum lánveitingum sem Jóni Ásgeiri er gefið að sök að hafa hlutast til um frá Baugi til félaganna Gaums og Fjárfars og systur sinnar Kristínar. Þessum ákæruliðum var vísað frá héraðsdómi á grundvelli óskýrra refsiheimilda en Hæstiréttur komst að því að það eitt og sér gæti ekki leitt til þess að málinu yrði vísað frá.

Þá á dómurinn í dag að taka afstöðu til ákæruliðar á hendur Jóni Gerald Sullenberger, fyrrverandi viðskiptafélaga Baugsmanna. Jóni Gerald var gefið að sök að hafa aðstoðað við bókhaldsbrot með því að búa til tilhæfulausan kreditreikning frá félagi sínu Nordica sem færður var til tekna hjá Baugi í bókhaldi fyrirtækisins.

Enn fremur kemur það í hlut dómsins að kveða upp úr um hvort Tryggvi Jónsson, fyrrverandi aðstoðarforstjói Baugs, hafi gerst sekur um fjárdrátt með því að hafa látið Baug greiða fyrir útgjöld á kreditkorti sem í ákæru eru sögð hafa verið persónuleg útgjöld hans. Þessum 19. og síðasta ákærulið endurákærunnar var einnig vísað frá héraðsdómi þar sem verknaðarlýsing í ákæru taldist óljós. Því var Hæstiréttur ekki sammála og vísaði ákæruliðnum aftur heim í hérað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×