Innlent

Skiptar skoðanir um ágæti Blairs í hlutverki sáttasemjara

Ekki eru allir á eitt sáttir um möguleikum Blairs á að koma á friði fyrir botni Miðjarðarhafs.
Ekki eru allir á eitt sáttir um möguleikum Blairs á að koma á friði fyrir botni Miðjarðarhafs. MYND/Getty

Skiptar skoðanir eru á meðal Palestínumanna um ágæti skipunar Tony Blairs í starf sérstaks erindreka Miðausturlandakvartettsins svokallaða. Forseti Palestínu, Mahmoud Abbas fagnaði tilnefningunni en Hamas, samtök herskárra Palestínumanna eru ekki eins hrifin.

Í tilkyningu frá Hamas í dag kemur fram að tilnefning Blairs væri ekki til þess fallin að liðka fyrir friðarviðræðum í Mið-Austurlöndum, en það verður einmitt verkefni Blairs á næstu misserum. Hamasliðar vilja meina að afstaða Blairs til ástandsins sé sú sama og afstaða Ísraelsmanna og Bandaríkjanna.

Fréttaritari BBC í Mið-Austurlöndum segir, að líklegast sé að Blair mistakist ætlunarverk sitt, að koma á friði milli Palestínumanna og Ísrelsmanna. Hann bendir á að Ísraelar séu ánægðir með tilnefningu Blairs vegna þess að þeir telja að hann sé á þeirra bandi, en Palestínumenn séu óánægðir með tilnefninguna og nota sömu rök fyrir sínu áliti.

Blair hefur sætt mikilli gagnrýni jafnt heimafyrir sem og annars staðar fyrir að draga Bretland inn í stríðsreksturinn í Írak. Aðrir benda hins vegar á árangur forsætisráðherrans fyrrverandi í málefnum Norður-Írlands. Blair lék stórt hlutverk í því ferli sem lauk nú fyrir skömmu með því að þingi var komið á að nýju á Norður-Írlandi eftir nokkurt hlé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×