Innlent

Svar til Alcan ekki mál ríkisstjórnar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir það málefni Landsvirkjunar hvernig ósk Alcan um endurnýjun raforkusamnings verður svarað og telur ekki að ríkisstjórnin eigi að koma að því. Svarið gæti ráðið miklu um virkjana- og stóriðjuframkvæmdir í landinu á næstu árum.

Orku þriggja nýrra Þjórsárvirkjana átti að nýta í stækkað álver í Straumsvík. Þótt Hafnfirðingar hafi hafnað stækkun vill Alcan ekki missa raforkusamninginn, sem rennur út eftir fjóra daga, og þarf því að sannfæra Landsvirkjun fyrir vikulokin um að fyrirtækið hafi raunhæfa áætlun um að nýta raforkuna. Alcan-menn funda bæði með sveitarstjórnarmönnum í Ölfusi og Vogum þessa dagana enda þykir líklegast að fyrirtækið kjósi að reisa nýtt álver, annaðhvort í Þorlákshöfn eða á Keilisnesi. Svarið sem Landsvirkjun gefur við ósk Alcan leggur því línurnar um í miklar virkjana- og álversframkvæmdir.

Vilji Samfylkingin hafa áhrif á þróun mála gæti farvegurinn legið í gegnum hennar mann í stjórn Landsvirkjunar, Ágúst Einarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×