Innlent

Kemur á óvart hversu dýr hver ferð er

Ekkert bólar enn á aukaferðum Herjólfs á milli lands og Eyja sem samgönguráðherra lofaði í vor að teknar yrðu upp á álagstímum.

Gert var ráð fyrir 20 auka ferðum að næturlagi í sumar og yrðu þær einkum farnar seint á föstudagskvöldum. Að sögn Elliða Vignissonar bæjarstjóra er nú svo komið að heimamenn eiga í erfiðleikum að komast fyrirvaralaust á milli lands og Eyja vegna mikilla bókana í skipið. Þetta ástand sýni glöggt að núverandi ferja sé orðin alltof lítil.

Eftir því sem Elliði kemst næst er málið í hnút þar sem ekki hafa náðst samningar milli Vegagerðarinnar og Eimskips, sem annast rekstur Herjólfs, um greiðslur vegna aukaferðanna. Og Elliði á koll gátuna því Kristján L. Möller samgönguráðherra sagði fyrir ríkisstjórnarfund í morgun að það hefði komið á óvart hversu dýr hver ferð væri. Málið yrði skoðað í ráðuneyti hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×