Innlent

Einar Már fær lofsamlega dóma í Danmörku

Nýjasta ljóðabók Einars Más Guðmundssonar hefur fengið afar lofsamlega dóma í danskri þýðingu en bókin kom út fyrr í þessum mánuði. Einar er með ástarsögu í smíðum sem ratar án efa fyrir augu lesanda um næstu jól.

,,Hljóðir, grallaralegir og ómótstæðilegir töfrar..." segir í nýjum dönskum ritdómi um nýjustu ljóðabók Einars Más Guðmundssonar sem ber heitið Ég stytti mér leið framhjá dauðanum.

Ljóðabókin hefur vakið óvenjumikla athygli í Danmörku og var Einar Már gestur ljóðahátíðar á Norðurbrú í Kaupmannahöfn fyrr í mánuðinum. Ritdómar um bókina komu út í dönskum blöðum sama daginn og bókin kom fyrir augu lesenda.

Gagnrýnandi Weekendavisen telur þessi nýju ljóð Einars Más endurspegli nýtt þroskastig höfundar. Weekendavisen merkir meiri alvöru og tómleika í þessu ljóðasafni en í fyrri bókum höfundar. Yrkisefnið er þó kunnuglegt, fangavist, sjúkrahúsinnlögn, afvötnun og ýmsir ósigrar mannsins sem snúast þó í sigur.

Í Politiken segist gagnrýnandi smám saman hafa skynjað ómótstæðilega töfra þessara ljóða um einstaklinga í kreppu.

Einar Már fékk bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir nokkrum árum og nú geisar ný orrusta í höfði skáldsins, þar er að spretta fram ný ástarsaga sem kemur í út fyrir jól.

Skáldið vill ekkert segja um efni nýju bókarinnar, það kemur allt saman í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×