Innlent

Nýr og betri sæstrengur tryggir samkeppnishæfni Íslands

MYND/Hari

Niðurstöður athugunar á samkeppnishæfni Íslands fyrir svokölluð netþjónabú voru kynntar í Þjóðmenningarhúsinu í dag. Á fundinum kom fram að Ísland væri kjörinn staður fyrir starfssemi af þessu tagi. Eina fyrirstaðan fyrir því að Ísland geti talist tilvalinn staður fyrir þessa starfsemi væri tenging landsins við umheiminn en samgönguráðherra sagði að gæði fyrirhugaðs sæstrengs verði meiri en áætlað var í upphafi.

Að fundinum stóðu Hitaveita Suðurnesja, Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur, Farice, Síminn og Teymi auk Fjárfestingarstofu.

Í máli Kristjáns L. Möller samgönguráðherra kom fram að gæði nýs sæstrengs sem stendur til að leggja frá Íslandi verða meiri en áformað var í upphafi. Ráðherrann sagði gæði strengsins myndu tryggja samkeppnishæfni Íslands þegar kæmi að rekstri netþjónabúa.

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra tók einnig til máls og segir hann netþjónabú á Íslandi opni á mörg tækifæri fyrir innlendan þekkingariðnað. Um sé að ræða græna stjóriðju þar sem hluti orkunnar verði endurnýjanlegur. Össur sagði einnig nauðsynlegt fyrir þjóðina að eiga tiltæka orku til þess að mæta þörf af þessu tagi í stað þess að binda orkuna alla í stóriðju.

Forstjóri Skýrr, Þórólfur Árnason sagði ljóst að netþjónabú gæti skapað fjölmörg þekkingarstörf hér á landi í framtíðinni. Hann sagði Ísland vera algjörlega samkeppnishæft við önnur lönd í þessum efnum, eina vandamálið væri sæstrengurinn. Með tilkomu nýs sæstrengs verði Ísland hins vegar til fyrirmyndar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×