Innlent

Mikið um eiturlyfjaakstur í Skagafirði

Lögreglan á Sauðárkróki hafði í nógu að snúast vegna fíkniefna- og umferðarlagabrota um og eftir helgi. Fimm mál hafa komið upp síðan á föstudag þar sem fólk hefur verið tekið fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna á ýmsum farartækjum.

Lögregla stöðvaði för ungrar stúlku í Blönduhlíð á föstudag vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hún var flutt á lögreglustöð til yfirheyrslu. Þangað kom unnusti hennar á bifhjóli að sækja bílinn en hann reyndist hins vera undir áhrifum kannabisefna og var einnig handtekinn.

Þá var einn tekinn fyrir eiturlyfjaakstur á Norðurlandsvegi á mánudag en hann mældist á 155 kílómetra hraða á bíl sínum. Enn fremur var annar maður tekinn við Varmahlíð í gær en lögreglumenn veittu undarlegu aksturslagi hans á bifhjóli eftirtekt. Reyndist hann undir áhrifum amfetamíns.

Ekki voru þó allir á vélknúnum farartækjum. Lögreglan á Sauðárkróki hafði afskipti að manni aðfaranótt mánudags í eftirlitsferð sinni en hann var á reiðhjóli og hafði kastað frá sér hlutum þegar hann varð var við lögreglu. Lögregla elti manninn og fann á honum fíkniefni og var hann því handtekinn.

Lögreglan á Sauðárkróki bendir enn fremur á í tilkynningu sinni að frá áramótum hafi um 500 ökumenn verið stöðvaðir í Skagafirði vegna hraðaksturs og annarra umferðarlagabrota. „Það er því ljóst að þeir sem stunda hraðakstur í umferðinni eru ekki hólpnir þegar þeir koma í Skagafjörðinn, þótt þeir sleppi við hina alræmdu Blönduóslögreglu í Húnavatnssýslunum," segir lögregla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×