Innlent

Velferðarsvið segist vinna markvisst að málefnum aldraðra

Velferðarsvið tekur málefni öldruðu hjónanna alvarlega
Velferðarsvið tekur málefni öldruðu hjónanna alvarlega

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem lýst er, að fregnum af því að ekki hafi verið brugðist við hjálparbeiðni vegna aldraðra hjóna fyrr en sex dögum eftir að beiðnin var upphaflega lögð fram, sé tekið alvarlega. Velferðarsvið leggi metnað sinn í að veita öldruðum jafnt og öðrum borgarbúum góða þjónustu.

„Af hálfu Velferðarsviðs er því komið á framfæri að þegar hefur verið brugðist við ábendingu nágranna gömlu hjónanna um drátt á þjónustu með því að ýta úr vör rannsókn á því hvort pottur hafi verið brotinn í þjónustu sviðsins. Ef rétt reynist - verður gripið til viðeigandi ráðstafana til að tryggja að sömu mistök endurtaki sig ekki.

Velferðarsvið vekur athygli á því að markvisst hefur verið unnið að því að þjónusta og rjúfa félagslega einangrun aldraðra í sjálfstæðri búsetu á síðustu misserum.

Í hverfum borgarinnar hafa verið stofnaðir þverfaglegir nærþjónustuhópar til að þétta öryggisnet eldri borgara samhliða því að samhæfa þjónustu og starfskrafta opinberra aðila sem og hagsmunasamtaka og kirkju. Nærþjónustuhópunum er stýrt af starfsmönnum þjónustumiðstöðva Reykjavíkuborgar. Að auki eru í hópunum fulltrúar frá Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands, Félagi eldri borgara, heilsugæslu og sóknarkirkju í viðkomandi hverfi," segir í yfirlýsingunni

Þá segir að á vegum þjónustumiðstöðvar Laugardals- og Háaleitis sé unnið að tilraunaverkefni um svokallaðar fyrirbyggjandi heimsóknir. Íbúum 80 ára og eldri, sem ekki þiggi þjónustu borgarinnar, sé bréfleiðis boðið upp á kynningu á þjónustu Reykjavíkurborgar. Þiggi viðkomandi kynninguna, heimsæki starfsmaður þjónustumiðstöðvarinnar hann skömmu síðar. Í heimsókninni sé lögð áhersla á að veita ráðgjöf og upplýsingar um þjónustu fyrir eldri borgara auk þess að koma á tengslum milli eldri borgara og fagaðila í öldrunarþjónustu þar sem það á við. Velferðarsvið telur rétt að taka fram að óheimilt sé að þvingað aldraða til að þiggja þjónustu borgarinnar.

„Að lokum má nefna að öllum Reykvíkingum, 70 ára og eldri, var sendur hverfabundinn upplýsingabæklingur um þjónustu borgarinnar við aldraða uppúr síðustu áramótum," að því er fram kemur í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×