Innlent

Hraðakstur er dýrt spaug

Sektir vegna hraðaksturs hækkuðu verulega um síðustu mánaðamót. Til dæmis þarf ökumaður sem staðinn er að því að aka á 101 km/klst að greiða þrjátíu þúsund krónur í sekt. Nítján ökumenn voru kærðir vegna hraðaksturs í umdæmi lögreglunnar á Akranesi í síðustu viku.

Þá urðu nokkur umferðaróhöpp í umdæmi Akranesslögreglunnar og í tveimur tilvikum urðu slys á fólki. Þann 12. júní missti ökumaður stjórn á bifreið sinni við hringtorgið norðan Hvalfjarðarganga og lenti bifreiðin utan vegar og á ljósastaur. Í bifreiðinni voru tveir farþegar auk ökumanns. Farþegarnir hlutu minniháttar meiðsl, en ökumaðurinn slapp ómeiddur, enda var hann sá eini sem var í bílbelti. Þann 13. júní missti ökumaður torfærumótorhjóls stjórn á því þar sem hann var að aka um Reynigrund á Akranesi. Hann ók á kyrrstæða bifreið og slasaðist talsvert. Hann hlaut m.a. lærbrot. Mótorhjólið var óskráð og ótryggt. Þá var ökumaðurinn réttindalaus, en hann hafði verið sviptur ökuréttindum fyrr á þessu ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×