Innlent

Hærri sektir draga ekki enn úr hraða

Jón Örn Guðbjartsson skrifar

Þrátt fyrir hert viðurlög við hraðakstri hafði lögreglan í nógu að snúast við að stöðva ökumenn á ofsahraða um helgina. Þótt ökumenn geti átt á hættu að ökutæki þeirra verði gerð upptæk er hraðinn enn mikill.

Ný og hert úrræði til að stemma stigu við hraðakstri virðast ekki hafa náð að slá á alla því lögreglan hafði í nógu að snúast um helgina við að stöðva þá sem gerðust brotlegir við umferðarlög. Sjálfvirkir hraðamælar vegagerðarinnar gefa nokkuð glögga mynd af akstri um þjóðvegina en þeir sýna að fjölmargir ökumenn aka langt yfir leyfilegum hármarkshraða.

Lögreglan á Ísafirði hafði afskipti af ökumanni sem ók á 132 km. hraða á klukkustund á vegarkafla í Önundarfirði um helgina þar sem hámarkshraði er 90 km. Eftir hækkun hraðasekta á dögunum má þessi ökumaður búast við að greiða 90 þúsund krónur í sekt og fá ofan í kaupið 3 punkta í ökuferilsskrá.

Annar ökumaður var mældur á ofsahraða nærri Hólmavík en hann var gripinn á 168 km. hraða. Hann verður að öllum líkindum sviptur ökuleyfi í 3 mánuði og þarf að greiða hundrað og fimmtíu þúsund krónur í sekt. Hann fær að auki 4 punkta í ökuferilsskrá.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Selfossi, segir að hærri sektir séu ekki enn farnar að skila árangri en muni gera það.

Sektir hafa breyst fyrir hraðakstur með þeim hætti að lægsta refsing er nú 10 þúsund krónur fari ökumaður á 96 til 100 kílómetra hraða á klukkustund, þar sem hámarkshraði er 90 km.

Nú þarf ökumaður ekki að fara nema lítillega yfir 110 km. hraða til að greiða 50 þúsund króna sekt og fá að auki 1 punkt í ökuferilsskrá. Sektin fer upp í 70 þúsund rjúfi ökumaður 120 kílómetra múrinn og þá koma tveir punktar í ökuferilsskrána.

Fari ökumaður yfir 140 km hraða verður hann sviptur, að lágmarki í 1 mánuð, lágmarkssekt er 130 þúsund og fjórir punktar verða færðir í ökuferilsskrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×