Innlent

Yfir þúsund kandídatar brautskráðir frá Háskóla Íslands

Flestir útskrifuðust frá félagsvísindadeild.
Flestir útskrifuðust frá félagsvísindadeild. MYND/Hari

Alls voru 1.056 kandídatar brautskráðir frá Háskóla Íslands í dag og hafa þeir aldrei verið fleiri. Flestir útskrifuðust frá félagsvísindadeild og næst flestir frá viðskipta- og hagfræðideild. Þá voru 35 kandídatar brautskráðir í fyrsta skipti úr meistaranámi í verkefnastjórnun frá verkfræðideild.

Af þeim 1.056 kandídötum sem voru útskrifaðir í dag voru 369 að útskrifast með meistaragráðu eða diplómanám á meistarastigi og 695 með BS eða BA gráðu. Átta kandídatar útskrifuðust með fleiri en eina prófgráðu.

Flestir útskrifuðust frá félagsvísindadeild eða 287 talsins. Næst flestir útskrifuðust frá viðskipta- og hagfræðideild, 141. Frá hugsvísindadeild útskrifuðust 130 kandídatar, frá læknadeild 51, frá lagadeild 51, frá verkfræðideild 135, frá guðfræðideild 18, frá lyfjafræðideild 33, frá raunvísindadeild 114, frá hjúkrunarfræðideild 97 og 7 frá tannlæknadeild.

Í fyrsta sinn voru brautskráðir 35 kandídatar úr meistaranámi í verkefnastjórnun frá verkfræðideild. Þá útskrifaði lagadeild í fyrsta skipti meistaranema með sérstakar áherslur í sínu námi. Þá útskrifuðust fyrstu nemendurnir með MS-próf í lyfjafræði og fyrstu nemendurnir með BS-próf í lyfjafræði.

Í ræðu sinni lagði Kristín Ingólfsdóttir, háskólarektor, áherslu á sterka stöðu Háskóla Íslands og nefndi nokkur verkefni sem skólinn vinnur að í þeim tilgangi að skila þekkingu til samfélagsins og til að efla það í alþjóðlegu samhengi.

Þá fjallaði Kristín um nýbirta úttekt Ríkisendurskoðunar og sagði ánægjulegt að í þeim þremur greinum sem væru til umfjöllunar hefðu umsóknum í meistaranám við háskólann fjölgað hratt frá síðasta ári. Umsóknum um meistaranám í viðskipta- og hagfræði fjölgar um 56 prósent, í lögfræði um 46 prósent og í tölvunarfræði um 73 prósent.

Þá lofaði rektor árangur Ásdísar Jennu Ástráðsdóttur. Ásdís, sem er fjölfötluð, brautskráðist í táknmálsfræði í dag. Rektor sagði það einstakt afrek þegar fólk sem er mjög fatlað nær að sigrast á erfiðleikum og ná árangri í krefjandi háskólanámi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×