Innlent

Þrjátíu milljarðar í nýja vasa

Rösklega fjörutíu þúsund aðilar munu skipta á milli sín um 30 milljörðum króna í haust þegar eignir Samvinnutrygginga verða færðar eigendum nýs hlutafélags sem rís á grunni gamla eignarhaldsfélagsins.

Á fundi Samvinnutrygginga í gær var ákveðið að slíta eignarhaldsfélaginu með formlegum hætti. Kosin var 3ja manna skilanefnd sem sjá mun um fjárhagslegt uppgjör sem skiptunum fylgir en eignir og skuldir félagsins voru færðar til dótturfélagsins Gift fjárfestingarfélags ehf. Hlutir í því félagi koma til með að skiptast milli eigenda.

Hlutafé hins nýja félags verður m.a. skipt á milli fyrrum tryggingataka Samvinnutrygginga g.t. sem skipt hafa áfram við Vátryggingafélag Íslands hf. fram til 1. júní 2006 og áttu skilyrtan eignarrétt í Eignarhaldsfélaginu Samvinnutryggingar.

Eignarhlutirnir í hinu nýja félagi verða ekki afhentir fyrrum tryggingatökum fyrr en í fyrsta lagi í október nk.

Eins og fram hefur komið í fréttum okkar hefur eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar verið umsvifamikill fjárfestir á íslenskum hlutabréfamarkaði. Fjárhagslegur styrkur félagsins hefur vaxið jafnt og þétt á undanförnum árum samfara miklum gengishækkunum í fjármálafyrirtækjum.

Stærstu eignir félagsins eru hlutafé í Exista hf., íslenskum fjármálastofnunum og óbeinn eignarhlutur að tæpum þriðjungshlut í Icelandair Group hf. í gegnum Langflug ehf. Félagið er þriðji stærsti hluthafinn í Existu með hlut sem var í gær metinn á 20,6 milljarða króna.

Þegar Exista yfirtók VÍS á síðasta ári lauk beinni þátttöku Ehf. Samvinnutrygginga í vátryggingarekstri sem hafði staðið frá stofnun Samvinnutrygginga árið 1946. Eignarhaldsfélagið sjálft varð til við stofnun VÍS árið 1989 þegar Samvinnutryggingar sameinuðust Brunabótafélagi Íslands undir merkjum VÍS. Sem gagngjald gengu Samvinnutryggingar helmingshlut í VÍS.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×