Innlent

Mikill erill hjá lögreglunni á Akureyri

Mikill erill var hjá lögreglunni á Akureyri í nótt en þar fara nú fram bíladagar. Mikil fjöldi ferðamanna er í bænum og öll tjaldsvæði yfirfull. Lögregla hafði vart undan við að stöðva slagsmál og ólæti en ölæði gesta á svæðinu var mikið.

Allar fangageymslur voru margsetnar vegna þessa og segir lögregla helgina fara af stað með svipuðum hætti og ef um verslunarmannahelgi væri að ræða.

Um klukkan hálffjögur var lögregla kölluð til að tjaldstæðinu að Hömrum en þar hafði verið ráðist á mann. Þegar lögregla kom á staðinn til að ræða við árásarmanninn kom annar að og veittist að lögreglu. Mennirnir voru báðir handteknir og færðir í fangageymslur.

Þá var lögregla kölluð að tjaldstæðinu á nýjan leik klukkustund síðar en þá höfðu brotist út hópslagsmál við innganginn. Ráðist var á gæslumann tjaldsvæðisins sem meiddist lítillega og annar var skallaður í andlit. Þar með var ekki öll nótt úti enn því um sexleytið brutust aftur út hópslagsmál á tjaldsvæðinu og voru tveir handteknir.

Allt í allt var tilkynnt um 7 líkamsárásir á Akureyri í nótt. Auk þess þurfti lögregla að stöðva fjöldan allan af slagsmálum milli manna þó aðallega á tjaldsvæðinu að Hömrum, sinna útköllum vegna hávaða í heimahúsum og taka á móti fjölmörgum kvörtunum vegna svokallaðrar "burn-out" keppni sem að fór fram á Akureyrarvelli í gærkvöld þar sem kveikt var í hjólbörðum og var mest kvartað vegna reyks og slæmrar lyktar sem að fylgdi þessari keppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×