Innlent

Verktaki kom rútu til aðstoðar

Björn Gíslason skrifar

Betur fór en á horfðist þegar rúta með 34 innanborðs fór út af veginum rétt austan við Öndverðarnes á Snæfellsnesi á fjórða tímanum í dag.

Að sögn lögreglunnar á Ólafsvík var bílstjóri rútunnar að snúa við þegar rútan fór aðeins út af veginum og vó salt á honum. Óttaðist hann að rútan myndi velta og hafði því samband við neyðarlínuna.

Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð var virkjuð og bæði lögregla, sjúkralið og björgunarsveitir á Snæfellsnesi ræstar út auk þess sem tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar voru kallaðar út.

Þyrlurnar og sveitirnar voru hins vegar afturkallaðar eftir að verktaki við vinnu á svæðinu kom til aðstoðar og dró rútuna aftur upp á veginn en um eins metra fall var niður af veginum að sögn lögreglu. Fólkinu í rútunni var boðin áfallahjálp eftir atvikið en þáði hana ekki og hélt rútan því sína leið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×