Innlent

Ofursportbíll í óhappi

Ofursportbíllinn Ford GT sem er í eigu Brimborgar varð fyrir umtalsverðu tjóni í gær þegar sölustjóri Brimborgar á Akureyri missti stjórn á bílnum. Egill Jóhannsson framkvæmdastjóri Brimborgar segir að óljóst sé hve mikið tjónið sé en útsöluverð bílsins er 30 milljónir. Ökumanninum var boðin áfallahjálp.

Egill segir að óhappið hafi átt sér stað þegar verið var að fara með bílinn í þrif en hann átti að vera sýningargripur á Bíladögum á Akureyri sem standa yfir um helgina. Bíllinn hafði verið fluttur með skipi til Akureyrar því ekki þótti ráðlegt að keyra hann frá Reykjavík.

Það var sölustjóri Brimborgar á Akureyri sem fékk það verkefni að keyra bílinn á þvottastöðina en ekki vildi betur til en svo að hann missti stjórn á tryllitækinu með þeim afleiðingum að hann fór útaf við gatnamót á þjóðveginum og skall hann á vegarkanti með þeim afleiðingum að stuðarinn brotnaði. Egill tekur fram að ekki hafi verið um hraðakstur að ræða heldur hafi hið gríðarlega afl bílsins komið bílstjóranum að óvörum.

Bílstjóranum var boðin áfallahjálp og sendu samstarfsmenn honum blómvönd með hughreystingarkveðju. Bíllinn er hinsvegar á leið til Reykjavíkur í viðgerð og mun því ekki heiðra Bíladaga á Akureyri með nærveru sinni að þessu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×