Innlent

Flóahreppur hafnar Urriðafossvirkjun

Sveitarstjórn Flóahrepps hefur samþykkt að taka Urriðafossvirkjun út úr drögum að aðalskipulagi. Landsvirkjunarmenn segja þetta koma mjög á óvart og hyggjast ræða betur við hreppinn.

Urriðafossvirkjun er sú stærsta af þremur virkjunum sem Landsvirkjun áformar í neðri hluta Þjórsár, 125 megavött af afli. Henni fylgir jafnframt stærsta uppistöðulón þessara virkjana, nefnt Heiðarlón. Þjórsárvirkjunum var ætlað að afla orku vegna stækkaðs álvers í Straumsvík en þótt þau áform virðist nú frá lítur Landsvirkjun engu að síður á þessa virkjanir í sveitum Suðurlands sem nærtækasta virkjanakost sinn. En nú er komið babb í bátinn. Fréttavefurinn Glugginn skýrir frá því að sveitarstjórn Flóahrepps hafi samþykkt í gærkvöldi að að gera ekki ráð fyrir Urriðafossvirkjun í drögum að aðalskipulagi, en fyrrum Villingaholtshreppur hafði haft virkjunina inni. Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, segir þetta koma mjög á óvart. Viðræður muni hins vegar halda áfram við hreppinn þar sem þetta verði rætt betur og aflað skýringa. Þorsteinn bendir á að Urriðafossvirkjun sé í þremur sveitarfélögum, hin tvö hafi samþykkt hana, og því myndi Skipulagsstofnun þurfa að ná sameiginlegri niðurstöðu milli hreppanna. Hann vekur athygli á því Flóahreppur hafi ályktað um málið með þeim rökstuðningi að ekki sé fjárhagslegur ávinningur fyrir sveitarfélagið af virkjuninni. Landsvirkjun skilji málið þannig að hreppurinn sé að vísa til þess að fasteignagjöldin lendi í öðru sveitarfélagi. Fyrirtækið geti lítið gert við því, þetta séu landslög. Landsvirkjun hafi hins vegar ekki legið á þeirri skoðun sinni að heppilegra væri að tekjur færu jafnar á sveitarfélög þegar svona stór mannvirki væru annarsstaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×