Innlent

Gunnar Birgisson ætlar að kæra Mannlíf og Ísafold

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Bæjarstjórinn ætlar að kæra Mannlíf og Ísafold.
Bæjarstjórinn ætlar að kæra Mannlíf og Ísafold. MYND/Hrönn

Gunnar Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi ætlar að kæra umfjallanir tímaritanna Ísafoldar og Mannlífs en bæði blöðin hafa fjallað ítarlega um meint hneyklismál sem Gunnar er bendlaður við. Gunnar segir umfjöllun Mannlífs mestu lágkúru íslenskrar blaðamennsku og hann ætlar ekki að svara efnislega þeim ávirðingum sem á hann eru bornar í blaðinu.

Lágkúra

Í Mannlífi er farið vítt og breitt yfir feril Gunnars sem verktaka, þingmanns og bæjarstjóra og sagt frá meintri spillingu hans. „Þetta er ein mesta lágkúra sem maður hefur séð. Þessir menn sjóða þarna saman gamlar kjaftasögur sem ég ætla ekki að svara efnislega," segir Gunnar í samtali við Vísi. Hann hyggst hins vegar kæra umfjöllunina í Mannlífi og sömuleiðis umfjöllun Ísafoldar um tengsl hans við nektardansstaðinn Goldfinger.

Ærusvipting

„Tilgangur þessara manna er greinilega að svipta mig ærunni, en þetta hittir þá sjálfa fyrir."segir Gunnar. „Mér þykir reyndar merkilegt að þessir fjölmiðlar sem gefnir eru út undir verndarvæng auðhrings fái óárreittir að taka menn af lífi," segir Gunnar og á þar við aðkomu Baugs að útgáfu Mannlífs og Ísafoldar. „Ég veit ekki hvað ég hef gert þessum mönnum, ég er greinilega fyrir þeim."

Veit ekki hvað Reyni gengur til

Hann segist einnig undrast vinnubrögð Reynis Traustasonar, ritstjóra Mannlífs sem skrifar greinina ásamt Sigurði Boga Sævarssyni. „Ég hef aldrei haft neitt nema gott af þeim manni að segja og ég veit ekki hvað honum gengur til."

Lögsókn í undirbúningi

Gunnar segir lögsókn vera í undirbúningi. „Ég er nú ýmsu vanur en þetta gengur nærri fjölskyldu minni og ég sætti mig ekki við það. Það er því í vinnslu að kæra þessar greinar og það verður gert," segir bæjarstjórinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×