Innlent

Segja skýrslu um íslenska háskóla rangtúlkaða

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. MYND/GVA

Úttekt Ríkisendurskoðunar á íslenskum háskólum er ekki endanlegur mælikvarði á ágæti skólana heldur viðleitni til að opna umræðuna um hvernig megi meta þá. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Ríkisendurskoðun. Stofnunin telur að umræðan í fjölmiðlum um úttektina hafi í sumum tilfellum verið röng og hvetur til þess að menn ræði hana á málefnalegum forsendum.

Í yfirlýsingu Ríkisendurskoðunar kemur fram að þó að skýrsla stofnunarinnar fjalli um kostnað og skilvirkni og gæði háskólakennslu fari fjarri því að stofnunin setji jafnaðarmerki milli þessara þátta eða geri einn rétthærri öðrum.

Ríkisendurskoðun bendir á að í umræðu um skýrsluna hafi verið fullyrt að brottfall nemenda frá námi sé ekki reiknað inn í heildarmat á skilvirkni námsins. Þetta sé rangt og í skýrslunni sé skilvirkni ávallt metin út frá fjölda brautskráðra nemenda en ekki út frá heildarfjölda innritaðra nemenda.

Þá segir ennfremur í yfirlýsingu Ríkisendurskoðunar að hvergi sé það gefið í skyn í skýrslunni að mælikvarði á gæði háskólakennslu fari eftir því hversu ódýrir skólarnir eru. Þvert á móti hafi verið bent á að hár kostnaður geti verið vísbending um hátt þjónustustig við nemendur. Það sé hins vegar hlutverk stofnunarinnar að kanna hvernig því skattfé almennings sem ríkið veitir til einstakra stofnana og verkefna sé notað og hvort það sé gert á hagkvæman, skilvirkan og árangursríkan hátt.

Ríkisendurskoðun leggur áherslu á í yfirlýsingunni að úttektin hafi ekki verið endanlegur mælikvarði á ágæti íslenskra háskóla heldur einungis viðleitni til að opna umræðuna um það hvernig megi meta þá. Margir fyrirvarar séu settir fram í skýrslunni um túlkun einstakra atriða.

Stofnunin hvetur fólk til að kynna sér skýrsluna og ræða um efni hennar á málefnanlegan hátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×