Innlent

Heimildirnar féllu úr gildi 2004

Gunnar Valþórsson skrifar
MYND/Vilhelm

Heimildir sem Íslendingar veittu Bandaríkjamönnum til yfirflugs og lendinga á Keflavíkurflugvelli í tengslum við innrásina í Írak runnu út vorið 2004. Grétar Þór Sigurðsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu segir að heimildirnar hafi runnið út þegar innrásinni lauk og fjölþjóðaherlið á vegum Sameinuðu þjóðanna tók við aðgerðum í Írak.

Töluverðar umræður hafa skapast á Alþingi síðustu daga en stjórnarandstaðan hefur spurt ítrekað út í téðar heimildir og hvort þær hafi verið formlega afturkallaðar.

Grétar segir í samtali við Vísi að þegar ákvörðun um innrás í Írak hafi verið tekin hafi Bandaríkjamenn farið þess á leit við íslensk stjórnvöld að þeim yrði veitt heimild til þess að nota flugvöllinn í Keflavík í tengslum við innrásina. Þær heimildir hafi verið tímabundnar á þann veg að þær féllu niður um leið og innrásin var afstaðin.

Því hafi heimildirnar aðeins verið í gildi fram til vorsins 2004 þegar Öryggisráðið sendi fjölþjóðlegt herlið til Íraks í umboði Sameinuðu þjóðanna. Nú séu hins vegar í gildi almennar heimildir sem Íslendingar séu skuldbundnir af í tengslum við NATO aðild og tvíhliða samning landsins við Bandaríkin um varnir landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×