Innlent

Bifhjólamenn staðnir að ofsaakstri á Þingvallavegi

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gerði árangurslausa tilraun í gærkvöldi til að stöðva hóp bifhjólamanna eftir að þeir mældust á 174 kílómetra hraða á Þingvallavegi. Hluti hópsins virti ekki stöðvunarmerki lögreglunnar og ók áfram en hinn sneri við.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var um tíu bifhjólamenn að ræða. Hópurinn mældist á 174 kílómetra hraða á Þingvallavegi á austurleið.

Lögreglan kom sér fyrir við afleggjarann að Skálafelli með blikkandi ljós og hugðist stöðva för mannanna. Hluti hópsins hafði stöðvunarmerki lögreglunnar hins vegar að engu og hélt áfram. Hinn hlutinn sneri hins vegar við og hélt aftur til höfuðborgarinnar. Ekki kom til eftirfarar en unnið er að rannsókn málsins og ekki útilokað að ökufantarnir náist eins og segir í tilkynningu lögreglunnar.

Á mánudaginn slösuðust tveir bifhjólamenn illa eftir að annar þeirra keyrði á bíl. Mennirnir höfðu rétt áður mælst á ofsahraða og virt að vettugu stöðvunarmerki lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×