Innlent

Miðborgin hefur mörg sóknarfæri

Höskuldur Kári Schram skrifar
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri. MYND/HH

Miðborgin hefur mörg sóknarfæri til að auka verslun á svæðinu að mati Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, borgarstjóra. Aðeins rétt rúmlega helmingur borgarbúa fer oftar en einu sinni í mánuði í miðborgina til að sækja verslun samkvæmt nýbirtri könnun Capacent Gallup. Vilhjálmur segir tölurnar ekki vera áhyggjuefni og segir frekar um verkefni að ræða.

„Þetta veldur ekki beint áhyggjum," sagði Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri, í samtali við Vísi. „En þetta er verkefni og það er verið að gera eitt og annað til að styrkja miðborgina."

Aðeins helmingur borgarbúa verslar reglulega í miðbænum

Samkvæmt nýbirtri könnun Gallur sækja 20,9 prósent höfuðborgarbúa aldrei verslun í miðborg Reykjavíkur. Um 23 prósent fara sjaldnar en einu sinni í mánuði og því fara alls 43,7 prósent sjaldnar en einu sinni í mánuði eða aldrei í miðborgina til að sækja verslun. Þá sækja 26,2 prósent íbúa nágrannasveitarfélaga aldrei verslun í miðborginni og 37,8 prósent sjaldnar en einu sinni í mánuði.

Mikil gerjun í gangi

Vilhjálmur segir fyrirhugaðar framkvæmdir í miðborginni koma til með breyta stöðunni fyrir miðborgina. „Það er mikil gerjun í gangi varðandi uppbyggingu á öflugum verslunarkjörnum í miðborginni. Það á eftir að breyta stöðunni töluvert. Ég tel miðborgina hafa mörg sóknarfæri til að rétta sinn hlut."

Á Miðborgarþingi á morgun verður meðal annars fjallað um niðurstöður könnunar Capacent Gallup undir yfirskriftinni „Hverngi eflum við verslun og þjónustu í miðborg Reykjavíkur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×