Innlent

Miklar breytingar á Norræna húsinu

Miklar breytingar standa til á innviðum Norræna hússins en húsið verður lokað í sumar. Forstjóri hússins segir að samráð sé haft við Alvar Aalto stofnunina um breytingarnar.

Nýr forstjóri Norræna hússins, Max Dager, frá Svíþjóð, kynnti í morgun breytingar á starfsemi Norræna hússins auk þess sem hann lýsti framkvæmdum sem fyrirhugaðar eru á starfsemi hússins er það verður opnað að nýju á Menningarnótt.

Við opnun hússins á nýjan leik verður haldin sérstök hátíð sem mun standa í níu daga sem samanstendur af: tónlist, myndlist, hönnun, arkitektúr, dansi, sirkus, mat og pallborðsumræðum.

Forstjóri hússins segir að framundan séu breytingar á innviðum hússins sem miði að því að mæta nýjum áherslum í starfsemi. Meðal annars verður sett upp stafrænt kvikmyndahús sem geri kleift að sýna kvikmyndir og halda ráðstefnur um gervihnött með þátttöku manna utan úr heimi.

Norræna húsið er eitt af kennileitum Reykjavíkur. Breytingar innanhúss kalla á nýja hönnun en eins og kunnugt er, er húsið teiknað af finnska arkitektinum Alvar Aalto. Við breytingar á húsinu hefur verið haft samráð við Alvar Aalto stofnunina til að tryggja að nýjungar falli að þeim byggingastíl sem er á húsinu.

Forstjórinn segir að meira sé menning en myndlist á veggjum og því sé nýja kvikmyndahúsið áríðandi miðlunarkostur. Hann segir að það sé þó spurning hvort búnaðurinn verði notaður til að sýna frá knattspyrnuleikjum norrænna þjóða í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×