Innlent

Íslenskt lyfjafyrirtæki vex hratt á Spáni

Íslenska lyfjafyrirtækið Invent Farma á Spáni hefur vaxið gríðarlega frá því Íslendingar tóku yfir rekstur þess. Forkólfar fyrirtækisins fullyrða að fyrirtækið tvöfaldist að stærð á næstu þremur árum. Invent Farma vinnur að lyfjaþróun, auk þess að framleiða hráefni til lyfjagerðar. Fyrirtækið sérhæfir sig einnig í framleiðslu samheitalyfja og í markaðssetningu þeirra.

Íslenskir fjárfestar keyptu spænska eða katalónska fyrirtækið fyrir tveimur árum af Procter og Gamle og hafa breytt mjög áherslum í starfsemi þess. Markviss þungi er nú lagður á sókn inn á alþjóðlega markaði.

Söluaukning á erlendum mörkuðum er rösklega 30 prósent frá því Íslendingar komu að rekstri Invent Farma. Hjá fyrirtækinu starfa nú um 400 manns og velta þess í fyrra var um 5 milljarðar íslenskra króna. Friðrik Steinn Kristjánsson, stjórnarformaður Invent Farma, segir að gert sé ráð fyrir verulegri aukningu á þessu ári og að veltan nái sex milljörðum króna.

Invent Farma á í samstarfi við flesta af stærstu lyfjarisum heims, m.a. við Actavis. José-Luis Malagarriga, forstjóri fyrirtækisins, telur að fyrirtækið muni vaxa gríðarlega hratt á næstunni og tvöfaldast að stærð á þremur árum. Hann telur að fyrirtækið eigi mikla möguleika, ekki síst þar sem Íslendingar og Katalóníumenn hristist vel saman og eigi marga sameiginlega fleti sem nýtist vel í sókn inn á nýja markaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×