Innlent

Segir virkjanir borga sig upp á 15-16 árum

Orkuveita Reykjavíkur segir að virkjanir hennar borgi sig upp á 15 til 16 árum og mótmælir þannig þeirri frétt Fréttablaðsins í dag að virkjanirnar borgi sig ekki upp á 25 árum með raforkusölu til álversins í Helguvík miðað við tíu prósenta arðsemiskröfu borgarinnar.

Í tilkynningu frá Orkuveitinunni kemur fram að virkjanir fyrirtækisins séu fjármagnaðar að fullu með lánsfé og bent er á að arðsemiskrafan vegna samningsins við Norðurál sé um 13 prósent. Útreikningar á arðsemi samninga séu enn fremur flóknir.

Þá bendir Orkuveitan enn fremur á að lágmarkslíftími jarðgufuvirkjana sé 50 til 60 ár en ekki sé ólíklegt að virkjanirnar muni endast í yfir 100 ár með hliðsjón af því viðhaldi sem þær fá.

Enn fremur tekur Orkuveitan fram að fyrirtækið sé með lánshæfismat og fjármagni framkvæmdir hjá stórum alþjóðlegum fjárfestingasjóðum sem allir leggi mat á aðferðafræði OR við arðsemi virkjana. Þá hafi Eftirlitsstofnun EES einnig lagt mat á aðferðafræði OR á útreikningi á arðsemi virkjana og hvort í orkuverðinu felist niðurgreiðsla á álvinnslu.

Að lokum er bent á í tilkynningu Orkuveitunnar að rafmagnsframleiðsla í jarðvarmavirkjunum hennar greiði í raun niður heitavatnsframleiðslu fyrir borgarbúa. Ef ekki væri fyrir rafmagnsframleiðslu í virkjununum þyrfti heitavatnsreikningur borgarbúa því að vera 16 prósentum hærri. Þá hafi eigin framleiðsla OR einnig gert kleift að lækka rafmagnsverð um fjórðung miðað við vísitölu síðan rafmagnsframleiðsla fyrirtækisins í jarðvarmavirkjunum hófst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×