Innlent

Gætu átt rétt á allt að einni milljón króna

Íslenskar konur sem fengu sílikonfyllingar í brjóst frá framleiðandanum Dow Corporation fyrir árið 1992 eiga rétt á að lámarki um 78 þúsund krónur í bætur. 65 konur hafa lagt fram kröfu um skaðabætur frá fyrirtækinu.

Fyrirtækið Dow Corporation hóf framleiðslu á sílikonfyllingum árið 1972. Rúmu tuttugu árum seinna eða árið 1994 kærði hópur bandarískra kvenna fyrirtækið fyrir að selja óáreiðanlega vöru en fyllingarnar áttu það til að rifna og sílikonið þar með leka út í líkama kvennanna. Konurnar urðu fyrir mismiklum skaða vegna þessa.

Ári seinna lagði fyrirtækið upp laupana, hætti öllum viðskiptum með sílikon og stofnaði sjóð til að standa undir kröfugerðum kvenna sem hlotið hefðu skaða af fyllingunum en konurnar sem lagt hafa fram kröfu skipta þúsundum.

Í sjóðnum eru nú um 400 milljónir dollara eða sem samsvarar tæpum 26 milljörðum íslenskra króna. Allar konur sem fengu sílikonfyllingar frá Dow Corporation árið 1992 eða fyrr eiga rétt á að sækja um bætur úr sjóðnum.

Að því er fram kemur á vef skaðabótalögmannanna sem hafa yfirumsjón með kröfum úr sjóðnum eiga konur frá Íslandi einnig rétt á bótum úr sjóðnum.

Á vefnum kemur fram að konur geti ákveðið að gangast undir sátt og þá á kona sem fengið hefur sílikonfyllingu frá fyrirtækinu á þessu tímabili rétt á tæpum 80 þúsund krónum úr sjóðnum. Hafi konan hins vegar látið fjarlægja sílikonfyllinguna á hún rétt á tæpum 195 þúsund krónum úr sjóðnum.

Ef komið hefur í ljós að fyllingin hafi verið rifin á konan rétt á tæpri einni milljón króna úr sjóðnum. Telji konan sig hins vegar hafa orðið fyrir einhverjum skaða af völdum fyllingarinnar þá getur hún farið fram á hærri upphæðir með því að höfða mál.

65 íslenskar konur hafa lagt fram kröfu í sjóðinn og munu þær hittast á Hóteli Reykjavík Centrum þann 12. júní. Á fundinn mun einnig mæta Melissa Ferri, lögfræðingur á vegum sjóðsins.

Heimasíða sjóðsins




Fleiri fréttir

Sjá meira


×