Innlent

Ódýrustu sumarhúsin kosta tæpar fjörtíu milljónir króna

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Sumarhúsabyggð þar sem ódýrustu húsin kosta rúmlega fjörutíu milljónir króna og hægt er að lenda einkaflugvél nánast á hlaðinu er að rísa í Þykkvabænum.

Verið er að byggja húsin á landi Borgar og Eyrartúns í Þykkvabænum. Búið er að samþykkja deiliskipulag fyrir byggðina sem spannar 32 hektara. Alls verða byggð tuttugu og þrjú hús á næstu tveimur til þremur árum en á þessu ári rísa fyrstu sex húsin. Hver lóð er einn og hálfur hektari. Öll húsin eru bjálkahús og allt frá tvö hundruð fermetrum. Þau eru afhent fullbúin með húsgögnum og heitum potti. Húsunum fylgir aðgangur að eitt þúsund fermetra reiðhöll og hver og einn hefur auk þess leyfi til að byggja hesthús á sinni lóð.

Það eru byggingarfélagið Borg og verktakafyrirtækið 5X sem standa að byggingu húsanna. Sumarhúsunum hefur verið sýndur mikill áhugi af hugsanlegum kaupendum en ódýrustu húsin kosta fjörtíu og tvær milljónir króna.

Í dag var mælt út fyrir flugbraut á svæðinu og eigendur húsanna ættu í framtíðinni að eiga auðvelt með að lenda þar einkaflugvélum sínum ef svo ber undir. Fréttastofan hefur fyrir því heimildir að velstæður einstaklingur sé að skoða að láta setja saman tvær lóðir og reisa á þeim hús fyrir um eitt hundrað milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×