Innlent

Geiri á Goldfinger óttast ekki lögregluna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Geiri segir að stelpurnar séu sáttar hjá sér
Geiri segir að stelpurnar séu sáttar hjá sér

Ásgeir Davíðsson eigandi skemmtistaðarins Goldfinger óttast ekki afskipti lögreglunnar af rekstri staðarins. Hann segir að lögreglan rannsaki staðinn reglulega, meðal annars til að kanna aðbúnað þeirra stúlkna sem þar starfi. Hann fullyrðir að enginn eigandi skemmtistaðar sæti eins miklu eftirlit lögreglunnar og hann sjálfur. Hann gerir ekki ráð fyrir því að lögreglan fari í ítarlegri rannsókn á staðnum en verið hefur. Geir fullyrðir að engin ólögleg starfsemi eigi sér stað á Goldfinger og þvertekur fyrir að þar séu seld fíkniefni.

Bæjarráð Kópavogs hefur samþykkt tillögu minnihlutans um að óska eftir því við lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins að embættið láti kanna hvort Lögreglusamþykkt Kópavogs sé framfylgt á skemmtistaðnum Goldfinger. Þá samþykkti bæjarráðið jafnframt bókun þar sem skorað er á félagsmálaráðuneytið og stofnanir þess að rannsaka hvort lög um atvinnuréttindi og ferðafrelsi kunni að hafa verið brotin í tengslum við rekstur næturklúbbsins.

Guðríður Arnarsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í bæjarráði, sagði í samtali við Visir.is að bókanirnar væru lagðar fram vegna ummæla sem Ásgeir Davíðsson, eigandi Goldfingers lét falla í Íslandi í dag fyrir viku síðan. Þar hélt hann því fram að ferðafrelsi dansara á staðnum væri skert í átta klukkustundir eftir að vinnu þeirra lyki. Hann sagði jafnframt að konur dönsuðu einkadans í hálflokuðu rými og mótmælti því ekki að vændi væri stundað á skemmtistaðnum. Umsagnar lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins er beðið en hennar er von í næstu viku.

Guðríður segir eðlilegt að lögreglan taki frumkvæði í meðferð málsins því augljóst sé að þær konur sem starfi á Goldfinger þori ekki að lýsa starfseminni þar og muni ekki þora að kæra. Guðríður vill láta rannsaka hvort mannréttindi séu brotin á konunum og þær seldar mansali.

Ásgeir segir að hann skipti sér ekki af því hvað stelpurnar geri í frítíma sínum. Þær búi þar sem þær vilji og geri það sem þær vilji. Hann gerir þá kröfu til þeirra að þær hvíli sig í að minnsta kosti átta tíma á milli þess sem þær vinna. Hann skilur ekki að fólk geri athugasemdir við þessa kröfu. Áður fyrr hafi hann haft nokkuð stífari reglur fyrir stúlkurnar en þeim hafi verið breytt vegna mikillar andstöðu frá stúlkunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×