Innlent

Hæstiréttur staðfestir dóm yfir stofnanda píramídafyrirtækis

MYND/365

Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Lesley Patricia Ágústsson gegn Mark Ashley Wells, stofnanda fyrirtækisins Aquanetworld ltd. Héraðsdómur dæmdi Mark á síðasta ári til að endurgreiða Lesley rúmlega 2,6 milljónir króna ásamt dráttarvöxtum. Upphæðina lagði Lesley í fyrirtæki Marks árið 2005 en krafðist síðan endurgreiðslu þegar henni þótti sýnt að hann hefði ekki staðið við gerðan samning.

Lesley Patricia gerði í október árið 2004 samning við Mark Ashley í tengslum við fyrirtækið Aquanetworld en það fyrirtæki sérhæfir sig í sölu afsláttarkorta og byggir á píramídafyrirkomulagi. Átti Lesley að greiða rúmar 2,6 milljónir króna en verða í staðinn svæðisbundinn stjórnandi félagsins á Íslandi.

Þegar dráttur varð á því að fyrirtækið kæmist á koppinn þótti Lesley sýnt að Mark hefði beitt sig blekkingum. Krafðist hún því endurgreiðslu á þeim fjármunum sem hún hafði lagt í fyrirtækið. Mark taldi samninginn gilda til þriggja ára og því væri ekki hægt að endurgreiða fyrr en í fyrsta lagi árið 2008. Þá taldi hann sig heldur ekki bera ábyrgð á endurgreiðslunni þar sem hann hefði einvörðungu komið fram fyrir hönd Aquanetworld og því væri það fyrirtækisins að greiða peningana til baka.

Auk þess að að þurfa greiða Leysley 2,6 milljónir króna til baka var Mark Ashley gert að greiða samtals 800 þúsund krónur í málskostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×