Innlent

Hæstiréttur viðurkenndi kröfu Sigurðar Helgasonar um hærri eftirlaun

Hæstiréttur snéri í dag við dómi héraðsdóms í máli Sigurðar Helgasonar gegn FL-Group hf. Sigurður krafðist viðurkenningar á því að kaupréttarsamningar væru hluti af útreiknuðum launum þeirra átta starfsmanna sem hæst laun hefðu hjá fyrirtækinu, en laun þeirra voru til viðmiðunar við útreikning á eftirlaunum Sigurðar.

Sigurður, sem um árabil var forstjóri og síðan stjórnarformaður Flugleiða hf, gerði samning við fyrirtækið árið 1977 þess efnis að eftirlaun hans skyldu taka mið af útreiknuðum launum þeirra átta starfsmanna fyrirtækisins sem hæst laun hefðu við starfslok Sigurðar. Tekist var á um hvort kaupréttarsamningar þessara starfsmanna væru hluti af útreiknuðum launum.

Héraðsdómur hafði áður sýknað FL-Group af stefnunni en Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að telja skyldi verðmæti kaupréttarsamninga þessara átta starfsmanna með við útreikning viðmiðunar fyrir eftirlaun Sigurðar.

FL-Group var ennfremur dæmt til að greiða allan málskostnað í málinu, 800 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×