Innlent

Prestar reyna að ná sáttum í máli fríkirkjuprests

Höskuldur Kári Schram skrifar
Hjörtur Magni Jóhannesson, fríkirkjuprestur, segist ekki vera gagnrýna prestana átta.
Hjörtur Magni Jóhannesson, fríkirkjuprestur, segist ekki vera gagnrýna prestana átta. MYND/355

Hjörtur Magni Jóhannsson, prestur Fríkirkjunnar í Reykjavík, var kallaður fyrir siðanefnd Prestafélagsins í morgun til að ræða kæru átta presta á hendur honum. Á fundinum voru einnig mættir tveir kærenda. Var þetta fyrsta tilraun nefndarinnar til að ná sáttum í málinu en prestarnir átta hafa meðal annars gagnrýnt ummæli Hjartar í fjölmiðlum varðandi þjóðkirkjuna. Engin sátt náðist í málinu í morgun að sögn Hjartar.

„Þeir vildu meina að ég hafi ekki talað nógu gætilega í tengslum við þetta mál," sagði Hjörtur Magni Jóhannsson, í samtali við Vísi. „Þeir voru hins vegar ekki tilbúnir til að taka kæru sína til baka og ég kannast ekki við að hafa brotið siðareglur."

Átta prestar þjóðkirkjunnar lögðu fram kæru á hendur Hirti Magna Jóhannssyni í byrjun marsmánaðar vegna ummæla hans í garð þjóðkirkjunnar. Hjörtur hefur meðal annars gagnrýnt afstöðu þjóðkirkjunnar varðandi hjónaband samkynhneigðra og þá hefur hann einnig gert athugasemdir við fjárframlög kirkjunnar.Teljar prestarnir að ummæli hans brjóti gegn siðareglum Prestafélagsins.

Tveir af kærendunum átta voru mættir á fundinn með siðanefndinni í morgun en fundurinn stóð í um 40 mínútur. Gerðu prestarnir tveir einnig athugasemdir við ummæli Hjartar í fjölmiðlum og annars staðar að undanförnu í tengslum við málið. Töldu þeir Hjört ekki hafa farið nógu gætilega og að hann hafi stundum verið særandi og meiðandi í sínum ummælum.

Hjörtur vísar því á bug að hann hafi verið særandi í sínum ummælum segir málið byggjast að miklu leyti á misskilningi. „Ég hef aldrei nefnt þessa aðila á nafn í gagnrýni minni. Ég er að gagnrýna þjóðkirkjuna en þeir taka það af einhverjum ástæðum til sín persónulega. Það finnst mér út í hött."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×