Innlent

„Íbúðalánasjóður verður ekki einkavæddur á meðan ég er í ráðuneytinu“

MYND/GVA

Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra segir ekki koma til greina að einkavæða Íbúðalánasjóð. Þetta kom fram í umræðum utan dagskrár á Alþingi í dag sem Guðni Ágústsson hóf. Hann vildi vita hvað ríkisstjórnin væri að „véla" með sjóðinn.

Guðni sagðist vilja vita hvað ríkisstjórnin væri að „véla" með sjóðinn og spurði ráðherrann hvort hafin væri sölumeðferð á sjóðnum. Jóhanna sagði mikilvægt standa vörð um sjóðinn, dregið hefði úr félagslegu hlutverki hans sem væri áhyggjuefni. Hún fullvissaði Guðna um að ekkert samkomulag væri fyrir hendi um breytingar á Íbúðalánasjóði.

Umræðan hefur farið fram

Árni Mathiessen, fjármálaráðherra sagði einkennilegt hve mikið heimur Guðna hefði breyst á þeim stutta tíma sem liðinn væri frá kosningunum. Hann benti þó á að umræða hefði farið fram um að færa forsvar sjóðsins til annars ráðuneytis og átti væntanlega við sitt eigið.

Gamla góða Jóhanna

Guðni sagði í lokin að umræðan staðfesti, að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefði látið plata sig til þess að samþykkja sölu Íbúðalánasjóðs. Hann þakkaði félagsmálaráðherra fyrir skýr svör í málinu og hvatti „gömlu góðu Jóhönnu" til að gefa ekkert eftir og „halda fast í feldinn," eins og hann orðaði það.

Stendur ekki til að einkavæða

Jóhanna lauk svo umræðunni á þann veg að hún fullvissaði þingheim um að ekki standi til að einkavæða Íbúðalánasjóð. „Íbúðalánasjóður verður ekki einkavæddur á meðan ég sit í félagsmálaráðuneytinu," voru lokaroð ráðherrans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×