Innlent

Kona dæmd fyrir líkamsárásir og eignaspjöll

Kona á þrítugsaldri var á dögunum dæmd í 30 daga skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Vestfjarða fyrir líkamsárásir og eignaspjöll. Brotin áttu sér stað í félagsheimilinu í Hnífsdal aðfaranótt 13. apríl á síðasta ári. Frá þessu er greint á vef Bæjarins besta.

Hin ákærða var dæmd fyrir að hafa slegið konu á salerni og sparkað í hana liggjandi. Einnig var hún ákærð fyrir að hafa bitið aðra konu í baugfingur. Að lokum var henni gefið að sök að hafa eyðilagt hurð og klósett í félagsheimilinu.

Hin ákærða játaði eignarspjöllin og að hafa bitið umrædda konu. Hún neitaði hinsvegar að hafa framið fyrrnefndu líkamsárásina. Framburður konunnar þótti ótrúverðugur. Hins vegar þótti lýsing vitna á atburðunum og vottorð læknis fyrir áverka fórnarlambanna staðfesta árásina.

Auk fangelsisvistar var konan dæmd til að greiða fyrir skemmdirnar á salerninu og allan sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×