Innlent

„Markmiðið er að viðhalda atvinnu á þessari fallegu eyri“

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Kristján Erlingsson.
Kristján Erlingsson.

Kristján Erlingsson, forsvarsmaður Oddatáar sem keypt hefur allar fasteignir og tæki Kambs á Flateyri segir að aðalmarkmiðið með kaupunum sé að tryggja atvinnu á Flateyri. Hann segir mikla óvissu enn vera ríkjandi í málinu en er bjartsýnn á dæmið gangi upp. Kristján segir það ráðast á næstu vikum hvort allir fyrrum starfsmenn Kambs fái vinni í nýja fyrirtækinu.

Kristján er Flateyringur og það er helsta ástæða þess að hann ákvað að fara út í þetta ævintýri. „Markmiðið er einfaldlega að viðhalda atvinnu á þessari fallegu eyri," sagði Kristján í samtali við Vísi. Hann segist bjartsýnn á að vel takist til. „Maður verður alltaf að vera bjartsýnn en auðvitað er mikil óvissa enn fyrir hendi." Hann sagði Oddatá hafa það að markmiði að eyða óvissu hjá þeim íbúum Flateyrar sem þar hafa fest rætur, eiga þar fasteignir og fjölskyldu.

Hann segir að hjá Kambi hafi starfað gríðarlega gott starfsólk með mikla reynslu og að allur tækjakostur sé fyrsta flokks. „Við höfum gríðarlega afkastagetu og nú þurfum við einfaldlega að fá fólk í lið með okkur."

Aðspurður hvort hægt sé að reka fyrirtæki á Flateyri við núverandi aðstæður sagðist hann vona það. „Hér hefur verið stöðug vinnsla í áraraðir þrátt fyrir ýmis áföll og ég held að það sé hægt að halda hér áfram. En það mun taka á."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×