Innlent

Hvað eru Íslendingar að gera í Danmörku?

Gunnar Valþórsson skrifar
MYND/Teamevent

Flestir þeirra Íslendinga sem búsettir eru í Danmörku og stunda vinnu á annað borð starfa við að veita ýmiskonar þjónustu við atvinnurekstur. Í þessum geira starfa 530 Íslendingar en í tölum dönsku hagstofunnar vekur það athygli að aðeins 19 Íslendingar stunda sjóinn í Danmörku.

Fjármálaráðuneytið hefur tekið saman við hvað þeir 7.800 Íslendingar sem búsettir eru í Danmörku eru að starfa við. Samkvæmt tölum dönsku hagstofunnar töldust aðeins 3.200 þeirra hafa verið starfandi um síðustu áramót. Á starfsaldri, 16 - 74 ára, voru 5.900 og því er hlutfall þeirra sem stunda vinnu og eru á starfsaldri aðeins 54 prósent.

Í tölum hagstofunnar dönsku kemur þó ekki fram hve stór hluti þessara Íslendinga er á atvinnuleysisskrá og segir ráðuneytið að gera verði ráð fyrir því að töluverður fjöldi þessa fólks sé í námi.

Lánþegar Lánasjóðs íslenskra námsmanna í Danmörku hafa verið um það bil 1.000 undanfarin ár að því er kemur fram í frétt ráðuneytisins. „Sumir þeirra fara til starfa eftir það á þeim vettvangi sem þeir hafa menntað sig til en aðrir við það sem þeir störfuðu við hérlendis." Enn aðrir fara svo utan til að freista gæfunnar, reyna eitthvað nýtt. Ráðuneytið bendir á að íslenskum starfsmönnum útrásarfyrirtækjanna í Danmörku fari fjölgandi.

Flestir vinnandi Íslendinga í Danmörku afla sér lífsviðurværis í þjónustu við atvinnurekstur. Þar eru um að ræða fyrirtæki eins og bókhalds- og auglýsingastofur, arkitekta- og verkfræðistofur. Í þessum geira störfuðu 530 Íslendingar um síðustu áramót, eða 18 prósent af vinnandi Íslendingum í Danmörku.

Starfsmenn í félagsþjónustu eru næstfjölmennastir og þar á eftir koma starfsmenn í byggingastarfssemi, menntastofnunum, heilbrigðisstofnunum og á hótelum og veitingastöðum.

Það vekur kannski mesta athygli að einungis 19 Íslendingar stunda sjóinn í Danmörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×