Enski boltinn

Tottenham að opna budduna

Darren Bent spilar tæplega í 1. deildinni á næsta tímabili
Darren Bent spilar tæplega í 1. deildinni á næsta tímabili NordicPhotos/GettyImages

Forráðamenn Tottenham Hotspur ætla að opna budduna upp á gátt og vera duglegir að versla í sumar. Þetta fullyrðir blaðið News of the World í dag. Félagið keypti hinn unga og efnilega Gareth Bale til sín á dögunum og blaðið telur sig hafa heimildir fyrir því að fleiri góðir leikmenn séu á innkaupalistanum á næstunni.

Þannig á Martin Jol knattspyrnustjóri að vera í viðræðum við Charlton um kaup á framherjanum Darren Bent og sagt er að Tottenham ætli að gera 10 milljón punda tilboð í kappann. Charlton er þó sagt vilja um 23 milljónir fyrir hann. Þá ku Tottenham vera að reyna að fá til sín vinstri vængmanninn efnilega Nani frá Sporting Lissabon, en sá er aðeins tvítugur og hefur verið kallaður nýr Cristiano Ronaldo. Fjöldi félaga eru á höttunum eftir Nani, þar á meðal Manchester United. Þá eru þeir Nigel Reo-Coker, sem nýverið fór fram á sölu hjá West Ham, og Stewart Downing hjá Middlesbrough einnig sagðir í sigtinu hjá Tottenham.

Framherji liðsins Dimitar Berbatov hefur nokkuð verið orðaður við stóru liðin á Englandi, en heimildamaður News of the World segir að Búlgarinn hafi fengið meira en helmings launahækkun og sé kominn upp í um 50,000 punda vikulaun sem geri hann að einum launahæsta leikmanni liðsins ásamt fyrirliðanum Ledley King.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×