Innlent

Björn sáttur við niðurstöðuna

MYND/Stöð 2

Björn Bjarnason, sem verður áfram dóms- og kirkjumálaráðherra í nýrri ríkisstjórn, segir að honum lítist vel á þá niðurstöðu sem varð í vali á ráðherrum Sjálfstæðisflokksins og samstarfið við Samfylkinguna. Góð samstaða hafi verið um málefnasamninginn hjá sjálfstæðismönnum og líka um verkaskiptinguna.

Aðspurður um ráðherraval að öðru leyti segir Björn að þetta hafi verið samþykkt og að hann telji að menn séu bara mjög sáttir við þetta allt saman. Hann hafi ekki orðið var við annað.

Björn segir aðspurður að hann viti ekki hvort gerðar verði breytingar á ráðherraliði flokksins á miðju kjörtímabili. Það sé hugsanlegt eins og alltaf sé en það hafi ekki verið tilkynnt um það í kvöld.

Aðspurður hvort hann gerði þá ráð fyrir að sitja sem dóms- og kirkjumálaráðherra til loka kjörtímabils sagði Björn að hann hefði verið valinn af þingflokknum til þess að vera ráðherra. Það yrði að koma í ljós hvað hann yrði lengi. „Ég get líka orðið önnur kjörtímabil ef svo ber undir en ég læt mér nægja þetta að þessu sinni,"sagði Björn í léttum dúr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×